Hjólað frá Bjarkarlundi til Flateyrar 2006; Hjólað frá Reykjavík til Ísafjarðar 2005

Þetta blogg er um hjólaferðalög okkar Guðbjarts um Vestfirði 2005 og 2006. Vonandi gengur að koma upplýsingum um ferðina ínná bloggið á leiðinni.

05 júní 2006

Áfangi 4 Út í Svalvoga


Komum um kl. 22.30 og búnir að tjalda í Höfnum sem er ytst á nesinu milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Þegar við vöknuðum í morgun sáum við að ekkert rignt um nóttina og létt upp þokunni sem var í gærkveldi. Við vorum eiginlega búnir að ákveða að stoppa ferðina í Mjólká ef haldið hefði áfram að rigna. Það er lítið varið í að paufast áfram í rigningu og og sudda. Ætlaði Magni bróðir að skutlast eftir okkur ef rigningin og dumbungurinn hefði haldið áfram. En sem betur fer var svo ekki. Við þökkum Orkubúi Vestfjarða og Steinari Stöðvarstjóra Mjólkárvirkjunar kærlega fyrir að hýsa okkur.
Við vorum bara klst. inn að Hrafnseyri. En eftir það hægðist ferðin þar sem vegurinn versnaði og þurftum við að vaða ár og læki. Ég ætlaði að hjóla yfir eina ána en það tókst ekki betur en svo að ég datt í henni miðri en tókst að redda mér þannig að ég blotnaði bara í lappirnar. Guðbjartur sá ófarirnar og klæddi sig úr sokkum og skóm og óð yfir... mun viturlegra
Þegar við komum í Stapadal tók við slóðin sem liggur í fjörunni fram hjá Stapanum. Þetta leit ágætlega út í byrjun en fljótlega hvarf vegurinn og í stað kom stórgrýtt fjaran þar sem öldur vetrarins höfðu eyðilagt veginn en á þessum stað þarf að gæta sjávarfalla (ca 2km). Var mikið verk að draga hjólin og vagnana yfir stórgrýtið. En yfir komumst við. Þá komum við á slóðan aftur. Hafði Geir frændi (sem vinnur hjá Vegagerðinni) deginum áður látið hreinsa slóðan fyrir okkur en mikið grjóthrun var á honum eftir veturinn. Það var mikill munur að komast á ruddan veginn. Þökkum við Vegagerðinni góða þjónustu.
Þegar við komum á slóðann sáum við að brekkurnar á Barðaströndinni eru ekkert brattar allaveganna ekki miðað við brekkuna sem lá upp úr fjörunni. Þar slitnaði keðjan á hjólinu hjá mér í átökunum en sem betur fer urðu engin meiðsli þó ég dytti á hausinn. Þegar við komum í Lokinhamra/Hrafnabjörg var farið að rigna en ennþá var stilla og 6-8° hiti. Fjöllin og fjaran en mikilfengleg þarna ytst á nesinu.
Þegar við komum í Hafnir var farið að hvessa í ofanálag við rigninguna og tjöduðum við í skjóli bak við Sumarbústað.

1 Comments:

At 11:21 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hlakka til að heyra meira af svaðilförum ykkar.
Magni skilaði pokanum frá þér.

 

Skrifa ummæli

<< Home