Áfangi 1



Erum komnir í Kollafjörð og tjölduðum rétt innan við Múla. Lögðum af stað frá Reykjavík um 11.30 á bílnum hans Guðbjarts. Dætur hans þær Kristín og Vala ásamt Sigmundi og Guðlaugu börnum Kristínar fóru með okkur og tóku bílinn til baka. Keyrðum við upp á Hjallaháls þar sem við ætluðum að skilja vagnana eftir en hálsinn er 350m hár. Við ætluðum svo að keyra til baka á byrjunarpunktinn sem er í botni Þorskafjarðar. þegar ég var að setja afturöxulinn sem notaður til að hengja vagninn á kom í ljós að hann var of langur og passaði engan veginn. Öxulinn hafði ég keypt í Erninum um um morguninn. Hann átti að vera með í vagninum sem ég fékk á leigu hjá Fjallahjólaklúbbnum en var ekki með. Við ákváðum að ég myndi fara til baka í Bjarkarlund og reyna að redda járnsög þar. Þetta reddaðist sem betur fer annars hefðum við lent í veseni því þá hefðum við einungis verið með einn vagn fyrir allan farangurinn og óvíst hvort það hefði gengið. Þar sem klukkan var orðinn rúmlega 5 ákváðum við að hjóla frá Hjallahálsinum. Vegurinn á Barðaströndinni frá botni Þorskafjarðar og að Múla hefur lítið breytst frá 1970. Það eru sömu hæðir og hólar, blind- beygjurnar og hæðirnar og fáránlega brattar brekkur.T.d. Er brekkan uppúr Djúpafirði yfir í Gufufjörð með 16% halla! Allt gerir þetta hjólreiðamönnum erfitt fyrir þar sem vegurinn er allur ómalbikaður í ofanálag. Það er mjög kalt 4-5 c og hvasst að norðan þegar við tjöldum en okkur tókst að finna smá skjól fyrir tjaldið.
1 Comments:
Hæ bróðir mikið ertu duglegur þetta er ábyggilega gaman. Gangi ykkur vel kær kveðja Þórdís systir
Skrifa ummæli
<< Home